Beint á efnisyfirlit síðunnar
22.01.2009

Stoðir fá framlengingu á greiðslustöðvun

Í dag samþykkti Héraðsdómur Reykjavíkur að framlengja greiðslustöðvun Stoða til 6. apríl 2009. Stærstu kröfuhafar félagsins höfðu áður lýst yfir stuðningi við framlengingu greiðslustöðvunar.

Framkvæmdastjórn Stoða og umsjónarmaður þess héldu kynningu fyrir kröfuhafa félagsins þann 16. janúar. Kynningin innhélt bráðabirgða upplýsingar um núverandi fjárhagsstöðu félagsins og samantekt á aðgerðum síðustu þriggja mánaða. Á síðustu mánuðum hefur framkvæmdastjórn félagsins lagt áherslu á að varðveita hagsmuni kröfuhafa sinna. Stoðir hefur reynt að selja nokkrar af óskráðum eignum félagsins en án árangurs. Félaginu hefur einnig tekist að fresta því að selja skráðar eignir þess á tíma þar sem markaðsvirði eigna er einkar lágt. Mikil vinna hefur verið lögð í að aðstoða félög í eignasafni Stoða þar sem fjárhagsstaða Stoða og almennt efnahagsástand á Íslandi hefur sett sum hver þeirra í erfiða stöðu. Framkvæmdastjórn Stoða hefur setið fjölda funda með kröfuhöfum sem sjálfir eru í greiðslustöðvun eða gjaldþrota og hefur það hægt þó nokkuð á öllu ferlinu. Á undanförnum mánuðum hefur starfsemi félagsins dregist saman umtalsvert. Skrifstofu félagsins í London var lokað og öllum starsfmönnum sagt upp. Á undanförnum vikum hafa samtals átta starfsmenn unnið hjá félaginu.

Eignasafn Stoða hefur fallið umtalsvert í verði á síðustu mánuðum en félagið varð fyrir miklum áhrifum af því þegar íslenska ríkið yfirtók stærstu eign félagsins, Glitni. Undanfarna sex mánuði hafa eignir félagsins lækkað í verði um tæplega 200 milljarða króna. Samkvæmt bráðabirgða mati á heildareignum afélagsins þann 31. desember síðastliðinn er eigið fé neikvætt um 111 milljarða króna. Það er því augljóst að ef ekki er gripið til neinna aðgerða, að þá verði félagið gjaldþrota.

Á fundinum með kröfuhöfum þann 16. janúar ályktaði framkvæmdastjórn Stoða að gjaldþrot félagsins þjónaði ekki hagsmunum kröfuhafa. Ef félagið yrði gjaldþrota myndi starfsemi félaga í eignasafni Stoða raskast og virði þessara eigna lækka umtalsvert. Framkvæmdastjórn hefur afhent kröfuhöfum uppkast að áætlun um endurskipulagningu félagsins. Áætlunin kveður á um að hlutur núverandi hluthafa verði að fullu afskrifaður og að kröfuhafar breyti hluta skulda sinni í hlutafé. Framlenging greiðslustöðvunarinnar gerir framkvæmdstjórn Stoða kleift að vinna frekar að endurskipulagningu félagsins í nánu samstarfi við kröfuhafa þess.

Frekari upplýsingar

Sími: 591 4400
Netfang: info@stodir.is