Beint á efnisyfirlit síðunnar
28.08.2009

Hagnaður af rekstri TM fyrstu 6 mánuði 2009

Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar hf. (TM) af reglulegri starfsemi á fyrri helmingi ársins 2009 nam 491 m.kr.

Helstu niðurstöður janúar til júní 2009

Hagnaður TM af reglulegri starfsemi á fyrri helmingi ársins 2009 var 491 m.kr. samanborið við 2.519 m.kr. tap á sama tímabili í fyrra. 

Hagnaður af vátryggingastarfsemi var 27 m.kr. fyrir skatta samanborið við 29 m.kr. hagnað á sama tímabili 2008.

Eigin iðgjöld jukust um 5% og voru 4.524 m.kr. samanborið við 4.307 m.kr. á sama tímabili 2008.

Eigin tjónakostnaður lækkaði um 6% og var 4.185 m.kr. á fyrri helmingi ársins samanborið við 4.464 m.kr. á sama tímabili 2008.

Eigið tjónshlutfall félagsins lækkaði úr 104% í 92% á milli ára.

Fjárfestingatekjur félagsins voru jákvæðar sem nemur 2.194 m.kr. á fyrri helmingi ársins en voru neikvæðar um 499 m.kr. á sama tímabili 2008.

Hagnaður af aflagðri starfsemi nam 3.021 m.kr. 

Heildareignir TM voru 30.699 m.kr. þann 30. júní 2009 og hafa lækkað um 39.166 m. kr. vegna sölu á norska
vátryggingafélaginu Nemi Forsikring ASA. Eigið fé nam 8.622 m.kr. og eiginfjárhlutfall var 28% þann 30. júní 2009. 

 

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM:

"Helsta verkefni félagsins undanfarin misseri hefur verið að bæta afkomu af vátrygginga­starfseminni. Sú vinna hefur haft þau áhrif að hægt hefur verulega á vexti og tjónakostnaður lækkar milli ára. Markmið um að bæta afkomu eignatrygginga og frjálsra ökutækjatrygginga náðust þegar á fyrri hluta ársins. Afkoma skipa-, slysa- og ábyrgðatrygginga á tímabilinu veldur hins vegar vonbrigðum. Unnið er markvisst að úrbótum og mun sú vinna halda áfram þar til jafnvægi hefur náðst. Árangur þeirrar vinnu ætti að verða ljós á fyrsta fjórðungi næsta árs.  Afkoma félagsins af fjárfestingastarfsemi skýrist að mestu af vaxtatekjum, kröfulækkun ríkistryggðra skuldabréfa og hækkun hlutabréfa. Hagnaður af aflagðri starfsemi skýrist af gengishagnaði við sölu á norska vátryggingafélaginu Nemi.  Fjárhagsleg staða TM er sterk og eignir á móti vátryggingaskuld (bótasjóður) traustar. Geta félagsins til að standa við skuldbindingar sínar er vel umfram það sem opinberir aðilar gera kröfur um."

Frekari upplýsingar

Sími: 591 4400
Netfang: info@stodir.is