Beint á efnisyfirlit síðunnar
30.09.2009

Stoðir höfða mál til riftunar fjögurra viðskiptagjörninga

Fréttatilkynning Stoða 30. september 2009:

Í kjölfar ítarlegrar úttektar sem gerð hefur verið á starfsemi Stoða á árunum 2006-2008, með tilliti til hugsanlegrar riftunar gjörninga, hefur stjórn Stoða gert ráðstafanir til riftunar fjögurra viðskiptagjörninga.

Í tengslum við nauðasamningsumleitanir Stoða við kröfuhafa sína sl. vor fékk umsjónarmaður með nauðasamningum Stoða, Þorsteinn Einarsson hrl., endurskoðendur Ernst & Young til að gera athugun á ýmsum þáttum rekstrar Stoða. Var þetta gert í því skyni að kanna hvort einhverjar ráðstafanir á eignum Stoða kunni að hafa rýrt heimtur kröfuhafa félagsins eða mismunað þeim. Fyrstu drög að skýrslu Ernst & Young lágu fyrir þann 26. maí 2009, þegar kröfuhafar samþykktu nauðasamninga Stoða með öllum greiddum atkvæðum.

Ný stjórn Stoða, sem er skipuð fulltrúum stærstu kröfuhafa sem jafnframt eru eigendur Stoða, ákvað í júlí sl. að framkvæma mun ítarlegri úttekt og skoðun á öllum þáttum sem viðkoma rekstri og viðskiptum félagsins. Til verksins voru fengnar lögmannsstofurnar Fulltingi og Lex, auk þess sem Ernst & Young lagði lokahönd á skoðun á bókhaldi og rekstrarkostnaði Stoða. 

Náði skoðun þessara aðila til allra ráðstafana og viðskiptagjörninga Stoða síðustu sex mánuði fyrir frestdag (tímabilsins 29. mars 2008 til 29. september 2008) og jafnframt til allra viðskipta Stoða við tengda aðila tvö ár fyrir frestdag (tímabilsins frá 29. september 2006 til 29. september 2008).

Með hliðsjón af niðurstöðum þessarar vinnu hefur stjórn Stoða nú gert viðeigandi ráðstafanir til riftunar fjögurra viðskiptagjörninga. Í einu tilviki er um að ræða riftun greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalda í janúar 2009 sem félagið er ekki talið hafa verið skyldugt að greiða. Annað riftunarmál snýr að sölu Stoða á hlutabréfum í Alfesca til Teymis í júlí 2008 þar sem endurgjald er ekki talið viðunandi. 

Hin tvö tilfellin lúta að veðsetningu og sölu eigna Stoða til Glitnis. Eignarhlutir Stoða í Eikarhaldi og Fasteignafélagi Íslands voru veðsettir Glitni samhliða lántöku í apríl 2008, og síðan seldir Glitni í júní 2008. Eignarhlutur Stoða í House of Fraser var veðsettur Glitni samhliða lántöku í mars 2008, og síðar seldur Glitni, í ágúst 2008. Veðsetning eignanna og ráðstöfun söluandvirðisins, að mestu til niðurgreiðslu skulda Stoða hjá Glitni, er talin hafa haft í för með sér mismunun gagnvart öðrum lánardrottnum Stoða.

Stoðir hafa þegar sent umræddum mótaðilum kröfur um riftun og endurgreiðslu. Stjórn Stoða vill taka fram að ekki er unnt að slá því föstu að riftanir umræddra ráðstafana gangi eftir og ennfremur þykir ljóst að töluverðan tíma mun taka að leiða þessi mál til lykta. 

Stjórn Stoða.


Frekari upplýsingar veitir:
Júlíus Þorfinnsson
Verkefnastjóri
Sími 896 6612
Netfang: julius@stodir.is

Frekari upplýsingar

Sími: 591 4400
Netfang: info@stodir.is