Beint á efnisyfirlit síðunnar
17.08.2010

Refresco eignast SDI

Refresco hefur tilkynnt um kaup sín á þýska fyrirtækinu Soft Drinks International (SDI), sem framleiðir bæði gos- og vatnsdrykki.

Refresco Holding B.V. hefur tilkynnt um kaup sín á þýska fyrirtækinu Soft Drinks International (SDI), sem framleiðir bæði gos- og vatnsdrykki. Refresco er leiðandi fyrirtæki í Evrópu í framleiðslu sérmerktra drykkjarvara, gosdrykkja og ávaxtasafa auk framleiðslu þekktra alþjóðlegra vörumerkja fyrir önnur fyrirtæki. SDI er öflugur framleiðandi á sínu starfssvæði, sem er einkum í Þýskalandi og Benelúxlöndunum, og er með framleiðslustöðvar í Erfstadt í Þýskalandi og Heerlen í Hollandi. Framleiðsluvörur SDI eru einnig fluttar út til annarra Evrópulanda. Fyrirtækið starfar eingöngu á markaði sérmerktra vara. Árið 2009 var heildarvelta fyrirtækisins 140 milljón evrur og framleiðsla u.þ.b. 1 milljarður eininga.

Ráðgert er að viðskiptin verði frágengin innan nokkurra mánaða en kaupverðið er trúnaðarmál.

Kaupin eru í samræmi við markmið Refresco um að auka umsvif sín með fyrirtækjakaupum og ná forystuhlutverki á sviði framleiðslu á óáfengum drykkjum í Evrópu. Þau eru einkum mikilvægt skref fyrir Refresco á þýskum gosdrykkjamarkaði, sem fer vaxandi. Kaupin gera Refresco kleift að auka enn frekar vöruúrval sitt, sem í Þýskalandi hefur hingað til samanstaðið aðallega af ávaxtasöfum. Þau gera Refresco þannig að alhliða þjónustufyrirtæki á sviði óáfengra drykkja þar í landi.

Refresco hyggst laga starfsemi SDI að eigin skipulagi og hámarka þannig skilvirkni í framleiðsluferlum, sem og bæta samkeppnisstöðu fyrirtækisins svo úr verði einn þriggja stærstu framleiðenda gosdrykkja og ávaxtasafa í Þýskalandi. Ennfremur styrkja kaupin stöðu Refresco á hinum vaxandi markaði sérmerktra drykkjarvara.

Hans Roelofs, forstjóri Refresco: „Það er okkur ánægja að tilkynna um þessi kaup, svo skömmu eftir hlutafjáraukninguna við endurkomu 3i í hluthafahópinn. SDI fellur vel að starfsemi okkar og gerir okkur kleift að styrkja enn frekar stöðu okkar á Evrópumarkaðnum almennt og einkum og sér í lagi á þýska markaðnum. Kaupin gera okkur enn fremur kleift að efla og útvíkka vöruúrval okkar fyrir núverandi viðskiptavini. Með samþættingu framleiðsluferla fyrirtækjanna tveggja getum við aukið skilvirkni í rekstri Refresco samstæðunnar enn frekar. Við höfum áður sýnt að með þessari nálgun getum við skapað virðisauka bæði fyrir fyrirtækið og viðskiptavini.

Jürgen May, forstjóri SDI, lítur einnig á kaupin sem jákvætt skref og sagði: „Þýski drykkjarvörumarkaðurinn er að ganga í gegnum krefjandi samþjöppunarskeið. Fyrirtæki verða að ná vissri lágmarksstærð vilji þau takast á við þessar áskoranir og ná árangri. Það er heillaskref fyrir SDI að ganga til liðs við Refresco samstæðuna. Úr verður fyrirtæki í fararbroddi á drykkjarvörumarkaðnum í Evrópu og Þýskalandi. Því hef ég verið fylgjandi þessu skrefi frá upphafi. Okkur er það ánægja að geta stuðlað að árangri hins sameinaða fyrirtækis með kunnáttu okkar og þekkingu á gosdrykkjamarkaðnum.“

Frekari upplýsingar

Sími: 591 4400
Netfang: info@stodir.is